Heil og sæl
Þegar þið kvödduð okkur á Holtaveginum í gær rigndi eldi og brennisteini (næstum því) en þegar var komið upp í Kjós birti til. Við gátum leikið okkur úti, sullað í læknum og meira að segja farið aðeins út á stuttbuxum áður en kom hellirigning aftur um kvöldið. En þegar við komum uppeftir sáum við hvað voru margar nýjar og fórum við í að skipta í herbergi og búa um okkur. Síðan skoðuðum við staðinn og fengum að heyra um reglur staðarins. Stelpurnar voru spenntar og allar tilbúnar í frábæra mini-viku í Vindáshlíð með jákvæðni og gleði. Þær fengu nýbakað bananabrauð og jógúrtköku í kaffitímanum og þar var tilkynnt um hvaða herbergi ættu að vera með atriði á kvöldvöku, hvaða herbergi byrjuðu brennókeppnina og auglýstar íþróttakeppnir, krafta – og broskeppni, föndur, leikir, frjálst og fjör. Í kvöldmat var grjónagrautur og lifrapylsa sem rann ljúflega niður. Eftir kvöldmat fórum við í kvöldvökusalinn okkar á kvöldvöku sem var ferlega skemmtileg, Þrjú herbergi sáu um atriði og sungum við af hjartans list á milli atriði og skemmtu sem allar vel. Kvöldkaffi var kærkomið, ávextir, áður við fórum á hugleiðingu þar sem við fengum að heyra um kvíða og aðrar tilfinningar. Hvað væri gott að komast yfir kvíðann í staðinn fyrir að sleppa því að gera sem við erum kvíðnar fyrir. Að kvíði sé tilfinning, eins og gleði og sorg, leiði, hræðsla osfr. En við gætum beðið Guð að vera með okkur í því sem við þyrftum og myndum þá mögulega finna styrk sem við héldum að við værum ekki með. Því ef maður sleppir einhverju sem maður er kvíðinn fyrir þá verður alltaf erfiðara og erfiðara að gera það sem við erum kvíðnar fyrir. Stelpurnar hlustuðu vel og tóku margar til sín það sem var verið að ræða. Þarna voru margar orðnar vel þreyttar og meðan aðrar voru enn í stuðinu. Bænakonur komu inn á herbergi til að spjalla og hafa notalegt saman, margar sofnuðu þegar þær voru enn inni, en sumar komu aftur fram til að fá extraknús vegna heimþrár. Allar sofnuðu þó á endanum og var komið alveg ró á um miðnætti. Það átti að vekja kl 9 og áttu þær sem myndu vakna fyrr áttu að leyfa hinum að sofa eins og þær vildu, hvísla eða læðast fram í setustofu til að spjalla. EN – það var komið allt á fullt – rosafjör og stuð um 7, þannig að dagskrá breyttist og þær 5 sem voru enn sofandi voru vaktar um 8, morgunmatur um 8.30 og allt komið á flug… spennandi hvernig kvöldið verður í kvöld Þær fóru upp á fána kl 10 og svo á Biblíulestur. Þaðan var haldið í brennó, íþróttir, föndur, leiki og útiveru… þar sem allir voru á fullu fram að hádegismat sem var kjúlli og franskar, grænmeti og kokteilsósa. Það er þurrt og fínt veður hjá okkur og erum við að fara í ratleik, Amacing race, um svæðið svo að allar nýju kynnist vel svæðinu. Herbergin vinna saman að allskonar þrautum og fara um svæðið. Síðan eru myndir frá okkur að hlaðast inn svo endilega fylgist með okkur…
Kærleikskveðjur úr Vindáshlíð, Hanna Lára forstöðukona