Þá er komið að síðasta heila deginum okkar hérna í Vindáshlíð og margar að upplifa blendnar tilfinningar því tengt – það er spenningur fyrir því að koma heim í hlýjan faðm fjölskyldunnar, og fá að segja frá öllum ævintýrum síðustu daga – en jafnframt erum við margar leiðar yfir því að þessi miklu veislu-flokkur sé nú senn á enda. En veisludagurinn er þó bara rétt hálfnaður og hitinn enn dansandi í 20 gráðum, svo það er enn tími fyrir aðeins meiri gleði.
Það voru þreyttar (en glaðar) stúlkur sem skiluðu sér aftur úr ævintýraförinni á Sandfellstjörn í gær. Síðustu leikir riðlakeppninnar í Brennó fóru fram seinni partinn í gær, auk þess sem stelpurnar tóku þátt í nýjum íþróttakeppnum og léku sér úti í sólinni fram að kvöldmat. Eldhúsið okkar töfraði fram dýrindis mexíkósúpu í kvöldmatinn og eftir hana var haldið á kvöldvöku þar sem þrjú herbergi stóðu fyrir skemmtun. Þaðan var haldið í kvöldkaffi og svo á hugleiðingu þar sem við heyrðum sögu sem minnti okkur á hvað við værum dýrmæt sköpun Guðs. Næturvaktin gekk frekar vel fyrir sig. Heimþráin var lítil en lúsmýið var þó aðeins að trufla.
Í morgun vöknuðum við svo margar með ný lúsmý-bit og er brennipenninn orðinn vinsælasti hlutur staðarins, þar sem stúlkurnar flykkjast að til að láta brenna bitin sín og þar með losna við kláðann (ef einhverjar óska eftir að keyptur verði svona penni á heimilið (#MæliMeð) þá má finna upplýsingar um hann hér). Við látum lúsmýið þó síður en svo stoppa okkur í gleðinni og höldum ótrauðar áfram í næstu ævintýri.
Á Biblíulestri morgunsins ræddi ég við stúlkurnar um fyrirgefninguna og mikilvægi þess að biðja um fyrirgefningu ef við gerum mistök, og veita fyrirgefningu þegar aðrir gera mistök og iðrast þeirra. Eftir það var komið að úrslitum í brennókeppninni en keppt var um 3-4 sætið og loks 1-2 sætið. Í æsispennandi úrslitaleik laut Eskihlíð naumlega í lægra haldi fyrir Furuhlíð, sem ganga í burtu sem brennómeistarar 6.flokks 2023. Þær eiga því í vændum leik við foringjanna á morgun, og eftir þann leik munu stúlkurnar í Eskihlíð slást í lið með foringjunum og spila leik gegn öllum stelpum flokksins.
Í hádeginu var boðið uppá fisk í raspi og franskar, og eftir það fóru stúlkurnar í hópavinnu til að undirbúa kirkjustundina sem verður núna seinni partinn. Nokkrar skráðu sig í sönghóp og æfðu nokkur lög sem þær ætla að flytja í kirkjunni, aðrar eru að æfa leikrit byggt á sögunni um Miskunsama Samverjann, enn aðrar tóku að sér að skreyta kirkjunna, þá var hópur sem sömdu bænir til að flytja í kirkjunni, og loks var hópur sem stóð í ströngu í kærleikskúlu-gerð og bjuggu til kærleikskúlur handa öllum stúlkunum til að gæða sér á í kvöld. Nú sitja allir og njóta þess að borða alvöru Vindáshlíðar-sjónvarpsköku (sú besta í heimi) og von bráðar hefst hér Vinagangur. Þar bjóða öll herbergi uppá einhverja skemmtun eða dekur og skiptast stúlkurnar á að heimsækja herbergi hvorrar annarar og þiggja það sem þar er í boði. Á Vinagangi eru allir að græja sig fyrir veislukvöldið, samhliða dekrinu. Klukkan 17:30 verður svo haldið í kirkjuna okkar – Hallgrímskirkju í Kjós – þar sem við munum eiga smá kirkjustund saman, áður en við tökum „vefa mjúka“ dans aftur niður að húsi og setjast í veisluskreyddan salinn og gæða okkur á veisludags-pizzum. Eftir veislumatinn verður svo veislukvöldvakan, þar sem gera má ráð fyrir að foringjarnir fari á kostum í skemmtidagskrá – eins og þeim einum er lagið. Það er svo aldrei að vita nema við laumum að þeim eins og einum íspinna á hugleiðingu í kvöld.
Við hlökkum til að sjá ykkur öll að Holtavegi 28 klukkan 14:40 á morgun, þriðjudag.
Kv. Tinna Rós, forstöðukona 🙂