Í gær lögðu af stað um 80 hressar stelpur upp í Vindáshlíð í Stubbaflokk 2023. Spenningurinn var mikill enda voru lang flestar að koma í Vindáshlíð í fyrsta skiptið. Við byrjuðum á því að fara allar saman út í íþróttahús þar sem að var byrjað á því að fara yfir reglurnar hér í Vindáshlíð og svo var stelpunum skipt niður í herbergi. Að sjálfsögðu fengu allar þær vinkonur sem komu saman að vera með hvor annari í herbergi. Herbergin fengu smá tíma til þess að kynnast en svo leið ekki að löngu þar til allar voru orðnar smá svangar og fórum við því í kaffitíma.
Í kaffitímanum var boðið upp á jógúrtköku og kanillengjur sem að sjálfsögðu sló í gegn. Í kaffitímanum kynntu allir foringjar stubbaflokk sig og hvert og eitt herbergi fékk sína bænakonu úr foringjahópnum sem fylgir sínu herbergi í gegnum flokkinn. Eftir kaffi fór hver og ein bænakona með sitt herbergi og aðstoðaði þær að koma sér fyrir. Þegar að stelpurnar voru búnar að koma sér fyrir var komið að smá frjálsum tíma þar sem að allskonar skemmtilegt var í boði eins og t.d. skemmtilegar og kannski smá skrýtnar íþróttakeppnir, brennó í íþróttahúsinu og föndur en svo skein sólin svo fallega á okkur að margar ákváðu að fara og vaða í læknum í góða veðrinu eða njóta náttúrunnar sem er hér í Vindáshlíð.
Í kvöldmatinn var svo boðið upp á kjúklingaleggi og franskar. Eftir kvöldmat var komið að kvöldvöku en að þessu sinni fóru stelpurnar í ratleik um svæðið þar sem þær fengu að kynnast Vindáshlíð aðeins betur og leysa hinar ýmsu þrautir saman sem herbergi. Stelpurnar héldu svo í kvöldkaffi að kvöldvöku lokinni þar sem að þær fengu banana og kex.
Eftir kvöldkaffi fóru stelpurnar í náttfötin sín og svo var haldið á hugleiðingu. En á hugleiðingu sungum við saman falleg lög og töluðum saman um það hvað það sé gott að vera með Guð í hjarta sínu og að það sé alltaf hægt að biðja til Guðs, bæði þegar að manni líður vel og þegar að manni líður illa.
Þegar að stelpurnar héldu að hugleiðingin væri að vera búin komu foringjarnir þeim að óvörum og sungu: „hæ hó jibbý jei og jibbý og jei það er komið náttfatapartý“. Stelpurnar voru ekkert smá ánægðar með náttfatapartýið og var mikið hlegið og brosað. Við dönsuðum uppi á borðum, fórum í leiki en svo kíktu líka nokkrir skemmtilegir gestir til okkar og glöddu stelpurnar, það var ein geimvera og tveir mjög skrýtnir en fyndnir menn úr lögreglunni sem voru að leita að geimverunni.
Stelpurnar enduðu svo daginn á því að bursta tennurnar sína í tannbustalæknum hér í Vindáshlíð en það er gömul og góð hefð. Þær sem vildu héldu út í læk en svo var auðvitað líka í boði að bursta tennurnar inni á baði. Bænakonurnar enduðu svo daginn með hverju herbergi. Ekki leið að löngu þar til það var komin ró í húsið og allar steinsofnaðar enda vel þreyttar eftir frábæran fyrsta dag hér í Vindáshlíð.
Í morgun vöknuðu stelpurnar eld hressar enda spenntar fyrir deginum hér í Vindáshlíð. Við byrjuðum á því að fá okkur morgunmat þar sem í boði var að fá sér cheerios eða kornflex með mjólk eða súrmjólk en svo var hafragrauturinn líka á sínum stað fyrir þær sem vildu. Eftir morgunmat er hefð fyrir því hér í Vindáshlíð að halda út að fánastöng en þar er fánahylling á hverjum morgni. Eftir fánahyllingu var svo haldið niður í kvöldvökusal á morgunstund með forstöðukonu þar sem við sungum nokkur skemmtileg og hress lög og spjölluðum saman. Að þessu sinni fengu þær að læra aðeins betur um Biblíuna og hvernig hún getur verið góður leiðarvísir í gegnum lífið þegar að manni til dæmis líður ekki vel.
Eftir morgunstund var komið að frjálsum tíma þar sem var í boði að fara út í íþróttahús og spila brennó, taka þátt í íþróttakeppnum, búa til vinaarmbönd, föndra eða bara njóta í góða veðrinu sem að umlykur Hlíðina þennan fallega dag. Það er svo spennandi dagur fram undan en meira um það síðar.
Þetta er alveg yndislegur stúlknahópur sem er hér saman komin í Stubbaflokki. Þær eru fjörugar, glaðar og ekkert smá skemmtilegar og okkur hlakkar mikið til að kynnast þeim betur þennan tíma sem við fáum að njóta með þeim hér í Hlíðinni.
Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12:00 í síma 566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum en ég minni einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid) fyrir þau ykkar sem vilja fylgjast með okkur.
Við munum svo reyna að vera dugleg að setja inn myndir úr flokknum en þær verður hægt að finna hér: Myndir
Hlýjar kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona