Í gær vöknuðu stelpurnar eldhressar og heldur betur til í daginn. Þær byrjuðu að sjálfsögðu á því að fá sér morgunmat þar sem að var boðið upp á morgunkorn og súrmjólk eða mjólk en svo var hafragrautur líka í boði fyrir þær sem vildu. Eftir morgunmat var fánahylling og morgunstund með forstöðukonu á sínum stað. Að þessu sinni ræddum við saman um sjálfsmyndina okkar allra. Við eigum það allar sameiginlegt að brjóta okkur stundum niður en við fórum yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar að okkur líður ekki nógu vel með okkur sjálfar. Við minntum okkur líka á að Guð sér okkur sem fullkomna sköpun sína og hvað það sé frábært að við séum allar ólíkar með ólíka hæfileika. Eftir þessa dásamlegu stund saman að þá var komið enn og aftur að frjálsum tíma með brennói, íþróttum og fleira.
Í hádegismat var boðið upp á steiktan fisk með kartöflubátum. Næst var komið að útiveru en að þessu sinni var farið í göngu niður að réttum sem eru hér í grennd við Vindáshlíð en þar var farið í réttarleikinn þar sem að stelpurnar eru kindurnar og foringjarnir eru bændurnir að elta þær og setja þær í dilka eftir t.d. lit á úlpu eða álíka.
Að lokinni útiveru var komið að kaffitíma en að þessu sinni bauð Edda bakari dagsins upp á skúffuköku og kryddbrauð sem að sjálfsögðu sló í gegn. Síðan var aftur haldið í frjálsan tíma með brennó, íþróttum og öllu tilheyrandi. Í kvöldmatinn var svo boðið upp á skyr og nýbakað brauð áður en haldið var á kvöldvöku kvöldsins. Að þessu sinni var byrjað á því að fara í útileiki þar sem að sólin skein svo fallega á okkur en svo var farið í leikinn Viltu vinna milljón spurningakeppni sem var æsispennandi og ein stúlka sem stóð uppi sem sigurvegari leiksins. Við enduðum svo daginn á því að fara í kvöldkaffi og hugleiðingu þar sem Steinunn foringi talaði um æðruleysis bænina góðu og hvað það er mikilvægt að muna að huga vel að okkur sjálfum.
Þegar að stelpurnar voru komnar í náttföt og voru á leið upp í rúm komu foringjarnir þeim að óvörum og sungu: „hæ hó jibbý jei og jibbý og jei það er komið náttfatapartý“. Stelpurnar voru ekkert smá ánægðar með náttfatapartýið og var mikið hlegið og brosað. Við dönsuðum uppi á borðum, fórum í leiki en svo kíktu líka nokkrir skemmtilegir gestir til okkar og glöddu stelpurnar, það var þáttastjórnandi sem að stjórnaði þætti af Djúpu Lauginni þar sem keppendurnir Finnur, Bóndinn og Grinch kepptust um að heilla hana Jónínu. Þetta vakti mikla lukku og hlátur og stóð Grinch uppi sem sigurvegari. Þetta vakti mikla lukku og hlátur. Stelpurnar fengu svo allar frostpinna í lok partýsins.
Það fóru því vel þreyttar er hrikalega glaðar stelpur á koddann hér í Hlíðinni í kvöld.
Ég minni enn og aftur á það að hægt er að nálgast myndir úr flokknum hér: Myndir
Hlýjar kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona