Í gær vöknuðu stelpurnar eldhressar enda veisludagur fram undan svo spennan var mikil. Í morgunmat fengu stelpurnar morgunkorn og mjólk eða súrmjólk með eins og vanalega en svo var haldið út að fána og svo á morgunstund með forstöðukonu. Að þessu sinni ræddum við saman um bænina Faðir Vorið og hvað allt saman þýddi í þessari frábæru bæn en einnig var í boði að spyrja allskonar spurningar varðandi Guð eða trúnna.
Eftir morgunstund var svo loksins komið að keppa í úrslitum í brennómótinu. Það var Birkihlíð sem stóð uppi sem sigurvegarar og eru því brennómeistarar 4.flokks 2024. Brennómeistararnir fá svo að keppa við foringjana í dag.
Í hádegismat var boðið upp á plokkfisk með rúgbrauði. Í útiveru tíma dagsins var farið í stutta göngu að Brúðarslæðu en það er lækur hér í nágrenni Vindáshlíðar. Þar fengu stelpurnar að vaða, busla og skemmta sér. Þar sem að sólin skein var einnig ákveðið að taka með sér kaffið á Brúðarslæðu en þar var í boði skinkuhorn og karamellulengjur.
Við heimkomu var svo komið að hinum sí vinsæla og skemmtilega vinagangi. En vinagangur er eitthvað sem að við gerum alltaf á veisludag hér í Vindáshlíð en þá mega stelpurnar bjóða upp á eitthvað skemmtilegt inn í sínu herbergi og bjóða öðrum stelpum og foringjum að kíkja í heimsókn. Vinsælast var að bjóða upp á nudd, spádóm, naglalökk eða hárgreiðslu. Um klukkan sex voru stelpurnar allar orðnar fínar og sætar fyrir veislukvöldið sem fram undan var.
Við byrjuðum á því að fara í kirkjuna okkar hér í Vindáshlíð en þar var haldin Hlíðarmeyjar messa. Við sungum skemmtileg lög saman og áttum notalega stund þar sem við ræddum saman um mikilvægi vináttunnar og það að rækta hana er gott fyrir alla. Allir þurfa að eiga góðan vin til þess að hvetja mann áfram, til að ganga í gegnum erfiðleika með og til þess að gleðjast með. Vinur er spegill sem sýnir ekki útlit heldur innri mann.
Þegar að við vorum búnar í kirkjunni sungum við fánan niður og fórum í vefa mjúka sem er gömul og skemmtileg hefð í Vindáshlíð. Í veislukvöldmatinn var svo boðið upp á pizzur og djús og það var sko heldur betur borðað vel af því. Næst tók veislukvöldvakan við sem er oft hápunktur vikunnar hjá stelpunum en þá stíga foringjarnir á svið og eru með leikrit og var mikið hlegið. Í hugleiðingunni fengu svo stúlkurnar íspinna og heyrðu sögu um þakklæti og hvað það er gott að hugsa ekki bara um sjálfan sig heldur líka um náunga sinn. Það voru því mjög þreyttar stelpur sem sofnuðu hér í Hlíðinni eftir viðburðaríkan dag.
Í dag fengu stelpurnar að sofa aðeins lengur þar sem þær fóru aðeins seinna að sofa í gærkvöldi. Þær fengu sér góðan morgunmat og svo héldu þær í kveðjustund með forstöðukonu. Þar heyrðum við um sögu KFUK og Vindáshlíðar. Núna eru stelpurnar í foringjabrennó en þar mæta brennómeistararnir í Birkihlíð foringjum Vindáshlíðar. Að því loknu verður pulsu partý í góða veðrinu áður en við höldum heim.
Á eftir fer rútan frá Vindáshlíð kl. 14:00 og verður því komin upp á Holtaveg 28 um klukkan 14:40. Þau ykkar sem ætlið að sækja stelpurnar ykkar upp í Vindáshlíð verðið því að sækja þær ekki seinna en 14:00. Endilega látið mig vita ef þið ætlið að sækja dömurnar ykkar, ef ég veit ekki af því nú þegar, svo að farangurinn lendi ekki óvart inn í rútunni. Það er hægt að hafa samband við mig í síma 566-7044.
Seinast en ekki síst minni ég enn og aftur myndirnar úr flokknum á eftirfarandi slóð: Myndir
Við í Vindáshlíð erum alveg rosalega þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast þessum frábæru stelpum, þeirra verður sko saknað og vonumst til að sjá sem flestar aftur í Hlíðinni.
Hlýjar kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona