Hæhæ, hér sé stuð! Eftir göngu að Pokafossi í gær var gott að koma heim í kaffi þar sem var jógúrtkaka og kryddbrauð í boði. Síðan hélt brennókeppnin áfram, íþróttir, föndur, vinabönd og sturtur – nóg að gera og græja fyrir kvöldvöku þar sem seinni helmingur herbergjanna sýndi atriði við mikla gleði og kátínu áhorfenda. Í kvöldmat var skyrbar þar sem var hægt að velja um þrennskonar skyr og velja sér ávexti útí og svo nýbakað brauð.

Margar voru orðnar ansi lúnar þegar bænakonur komu inn á herbergi kl 22 og einhverjar sofnuðu um leið og þær lögðust á koddann.

Í dag er veisludagur og byrjuðum við á því að fagna þeim áfanga að vera orðnar Hlíðarmeyjar eftir að hafa gist í 3 nætur í röð og fengum kókópopps í morgunmat samkvæmt hefðum og venjum. Á biblíulesti ræddum við um kærleikann og hvernig við ættum að sýna hvert öðru elsku og umhyggju. Sungum og komum okkur í gír fyrir daginn. Núna eru úrslitin í brennó og allar stúlkur í íþróttahúsinu að fylgjast með og hvetja. Í hádeginu verður plokkfiskur og grænmeti og svo hefst undirbúningur fyrir veisludag, veisluguðþjónustu og veislukvöld – frábær dagskrá framundan. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og að á morgun verðum við komnar heim á Holtaveg um 14.40. Muna að kíkja á myndirnar úr flokknum sem dælast reglulega inn. 🙂

Bestu kveðjur úr Hlíðinni,
Hanna Lára forstöðukona