Í gær mættu mjög hressar og kátar stelpur hingað í Vindáshlíð. Hópurinn er aðeins minni en oft áður en hér dvelja 46 stúlkur sem er bara dásamlegt. Það voru mjög margar búnar að koma áður og vissu því við hverju átti að búast en þó voru nú einhverjar að koma í fyrsta skiptið sem að er mjög spennandi. 7.flokkur er Ævintýraflokkur og því verða mikið af skemmtilegum ævintýrum hjá okkur næstu daga sem þær bíða spenntar eftir. Eftir að búið var að kynna allar reglurnar hér í Vindáshlíð fóru stelpurnar í herbergin sín sem að þær munu dvelja í næstu daga. Allar vinkonur fá að vera saman í herbergi en þó eru margar að deila herbergi með stelpum sem að þær þekktu ekki fyrir og byrjuðu því á því að kynnast nýju vinkonum sínum ásamt öllu hér í Vindáshlíð.
Þegar að búið var að koma sér fyrir var komið að kaffitíma en þar var á boðstólum kryddbrauð og hin vinsæla jógúrtkaka sem að öllum finnst svo góð hér í Vindáshlíð og sérstaklega núna því að hún kom en þá volg á borðið til stelpnanna. Eftir kaffi var síðan komið að frjálsum tíma en í honum hófust íþróttakeppnirnar þar sem stelpurnar keppa sín á milli í ólíkum en fjörugum og skemmtilegum keppnum í gegnum flokkinn en eins var margt annað í boði. Íþróttahúsið var opnað og stelpurnar tóku æfingarleiki í brennó fyrir brennókeppni vikunnar, í föndurherberginu var boðið upp á að búa til skreytingar á hurðina fyrir herbergið sitt en svo voru vinarmböndin auðvitað á sínum stað líka inni í setustofunni.
Í kvöldmat var Grjónagrautur sem að stelpurnar í eldhúsinu voru búnar að matreiða sem að sjálfsögðu sló í gegn. Eftir kvöldmat var svo komið að fyrstu kvöldvökunni en þar var farið í Amazing Race ratleik um svæðið þar sem að herbergin unnu saman að því að safna stigum á víð og dreif í Hlíðinni. Eftir ratleikinn fór svo allur hópurinn í íþróttahúsið í smá samhristingarleiki. Eftir kvöldvöku var haldið í kvöldkaffi þar sem boðið var upp á ávexti og kex og loks á hugleiðingu. Á hverju kvöldið í Vindáshlíð er hugleiðing þar sem að foringi segir fallega sögu eða orð, við syngjum saman róleg lög og þökkum fyrir daginn. Að þessu sinni var Svanhildur með hugleiðingu um þakklætið.
Eftir hugleiðingu var í boði að tannbursta sig í læknum okkar sem er einmitt kallaður tannburstalækur. Þetta er gömul en skemmtileg hefð hér í Vindáshlíð og í mörg ár hafa stelpur fengið að tannbursta sig þar. Svo var komið að því sem að stelpurnar biðu spenntar eftir allan daginn en það var bænakonuleitin. En hvert og eitt herbergi fær sína bænakonu úr foringjahópnum sem fylgir herberginu í gegnum flokkinn. Bænakonuleitin tók mislangan tíma hjá öllum herbergjunum en að lokum fundu öll herbergin sína bænakonu. Þær enduðu svo daginn með stelpunum og ekki leið að löngu þar til það var komin ró í húsið og allar steinsofnaðar enda vel þreyttar eftir frábæran dag.
Þetta er alveg hreint yndislegur stúlknahópur sem er mættur hingað í Hlíðina. Allar svo glaðar og flottar og okkur hlakkar mikið til að fá að kynnast þeim betur hér í 7. flokki.
Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12:00 í síma 566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum en annars ætlum við að vera dugleg að setja inn bæði myndir og fréttir hér á Vindashlid.is. Að gefnu tilefni minni ég einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid)
Myndir úr flokknum er hægt að finna á eftirfarandi slóð: Myndir
Hlýjar kveðjur úr Hlíðinni,
Elísa Sif forstöðukona