Heil og sæl
Vá! Dagurinn í gær var svo dásamlegur og frábær með skemmtilegu og hressu stelpunum ykkar. Við fórum í göngu að Brúðarslæðu að busla og borða nesti, komum svo til baka og vorum áfram úti að leika, brennó, íþróttir og almennt fjör fram að kvöldmat sem var kjötbollur, kartöflumús og grænmeti. Kvöldvaka var í boði 3ja herbergja sem sáum um skemmtiatriði og leiki.
Þar sem veðrið var svo gott þá fórum við út á fótboltavöll, sungum og trölluðum og fengum „smores“ (held að það sé skrifað svona) En það er heitur sykurpúði á milli tveggja súkkulaði kexkaka – þvílík fagnaðarlæti og gleði – auðvitað ávextir í boði líka 🙂
Vegna þess hve veðrið var gott þá mættu auðvitað flugur á svæðið og því flúðum við inn í hugeiðingu. þar ræddum við um fyrirgefninguna og hvað það getur verið erfitt að segja fyrirgefðu og líka að fyrirgefa ef einhver gerir á okkar hlut.
Stelpurnar græjuðu sig svo í háttinn og fengu bænakonurnar til sín til að fara yfir daginn og ræða um lífsins mál, það sem þeim lá á hjarta.
Þessi nótt gekk mun betur og fleiri sváfu miklu betur og lengur en þá fyrstu og byrjar dagurinn mjög vel hjá okkur.

Eftir morgunmat var farið á Biblíulestur að ræða um kærleikann og virðingu fyrir öðrum, hvernig við eigum að koma fram og vera hvetjandi vinkona. Stelpurnar eru núna farnar af stað í brennó, föndur og broskeppni og eftir hádegismat ætlum við í göngu í réttirnar.
Þetta eru rosalega jákvæðar og peppaðar stelpur og geggjað að vera með þeim. Myndirnar dælast inn og verið dugleg að skoða!

ATH – rútan kemur 14.30 á Holtaveginn á sunnudaginn – gott að vera tímalega því fljótlega á eftir okkur koma Ölver og Vatnaskógur líka heim svo að töskur og allskonar ruglist ekki 🙂 Ef einhver verður sóttur upp í Vindáshlíð fyrr þá væri gott að fá símtal um það og fá það staðfest!

Kærleikskveðjur, Hanna Lára forstöðukona og foringjakrúttin