Jæja fyrsti heili dagurinn liðinn og það var nú meiri dagurinn. Stelpurnar voru vaktar með útilegulögum þar sem þema dagsins var útilega. Eftir morgunmat fóru stelpurnar upp að fána þar sem hann var dreginn að húni undir fallegum söng stúlknanna. Eftir fánahyllingu fóru allar stelpurnar á biblíulestur með forstöðukonu þar sem við ræddum aðeins um kærleikann og hvernig talað er um kærleikann í biblíunni. Ræddum um samfélagsmiðla, hvað þeir geta haft í för með sér og hvernig þeir geta stundum skákað kærleikanum. Þær voru ótrúlega duglegar að hlusta og taka þátt í umræðum og við vorum allar sammála um að kærleikurinn er eitt það mikilvægasta sem við þurfum að tileinka okkur í lífinu.
Eftir biblíulestur fóru fram brennókeppnir, íþróttakeppnir og skemmtilegt föndur. Veðrið lék við okkur í dag og við nýttum góða veðrið og vorum úti. Í hádegismat var boðið upp á ljúffengar tortilla vefjur með kjúlla, sósum og grænmeti..og meira segja snakki fyrir þá sem vildu. Í útiveru dagsins fóru stelpurnar í skemmtilegann leik sem kallast Útilegumaðurinn. Þar voru þær að keppast um að ná að klára þrautir út um alla Hlíð en þurftu að passa sig á hlaupandi, reiðum útilegumönnum sem reyndu að ná stelpunum og fengu þær þá refsingu í leiknum. Allar skemmtu sér konunglega
Eftir útiveru borðuðum við kaffi úti í grasinu en það var boðið upp á ljúffengar súkkulaðibitakökur og kryddbrauð með smjöri&osti. Eftir kaffið héldu brennókeppnir og íþróttakeppnir áfram, ásamt því að stelpurnar geta auðvitað alltaf notið sín sjálfar í fallega umhverfinu og öllu sem það bíður upp á. Í kvöldmat voru grillaðir hamborgarar og boðið upp á franskar, allt í stíl við útileguþemað okkar !
Kvöldvakan var vel heppnuð, en hópurinn fór í skemmtilega gönguferð um svæðið sem endaði svo á fótboltavellinum. Þar var búið að kveikja varðeld og græja sykurpúða&smores. Við hlustuðum á útilegulög, grilluðum sykurpúða og borðuðum kex. Á hugleiðingu kvöldsins héldum við áfram að ræða um kærleikann, en foringi las fyrir stelpurnar áhugaverða sögu um hvernig á að koma fram við alla af sömu virðingu og kærleika. Eftir að hafa græjað sig í háttinn og burstað tennur í læknum, komu bænakonur og komu herbergjunum í ró.
Það sem einkenndi daginn var mikil gleði og mikill söngur. Og morgundagurinn verður líklega ekki af verri endanum, en þá munum við halda uppá afmælisdag líðveldisins með pompi og prakt <3
Minni á flickr, en þar setjum við inn myndir úr flokknum.
Kveðja úr Hlíðinni
Marín Hrund forstöðukona