84 hressar stelpur lögðu af stað í Vindáshlíð í gær tilbúnar í 6 stórskemmtilega daga saman. Þær komu sér fyrir, fóru yfir helstu reglur staðarins og svo hófst fjörið. Sumar kepptu í brennó, aðrar föndruðu og flestar tóku þátt í íþróttakeppnum dagsins. Dýrindis grjónagrautur var í matinn og kláraðist hann upp til agna, þeim fannst hann svo góður. Um kvöldið var farið í alls konar leiki í íþróttahúsinu og var þar bæði stuð og stemning. Í lok kvöldsins hófst æsispennandi bænakonuleit þar sem stelpurnar þurftu að leysa þrautina um hver væri þeirra bænakona. Allar stelpurnar fundu sína bænakonu og fóru sáttar að sofa eftir langan dag.
Dagurinn í dag einkenndist af lífi og fjöri. Það var Mamma Mia þema og voru stelpurnar vaktar með öllum helstu slögurunum úr þeirri bíómynd. Foringjarnir voru búnir að skreyta salinn og smella sér í búninga í tilefni dagsins. Ásamt því voru skemmtileg atriði í matartímunum og fengu þessi frábæru lög að óma um Hlíðina í allan dag. Stelpurnar fóru í Vindáshlíð‘s Top Model þar sem þær bjuggu sér til kjóla úr svörtum ruslapokum og notuðu pappír, blóm og greinar til þess að skreyta sig. Svo var tískusýning. Góður matur, skemmtilegar stelpur, frábærir foringjar og almenn gleði.
Hér er slóð á myndirnar úr flokknum, endilega fylgist vel með þar.
Kær kveðja Ásta og Pálína forstöðukonur.