Á sunnudaginn vöknuðu stelpurnar hressar og kátar. Brennó, vinabönd, föndur, leikir og íþróttakeppnir voru við völd og nutu stelpurnar sín í botn í þessu. Eftir hádegismatinn fóru þær í æsispennandi leik þar sem foringjarnir voru allir komnir með smitandi sjúkdóm og búnir að breytast í ófreskjur og þurftu stelpurnar að reyna að flýja úr Vindáshlíð. Á meðan leiknum stóð kom hið mesta úrhelli og urðu stelpurnar allar með tölu rennandi blautar. Komu þær inn eftir leikinn svolítið kaldar en hresstust hratt við að fá kökur í kaffitímanum. Restin af deginum fór í að undirbúa hæfileikasýningu en um kvöldið var Vindáshlið‘s got talent og fengum við að sjá fjölmarga hæfileika hjá þessum dásamlegu stúlkum. Ekki var fjörið þó búið eftir það því stelpunum var komið á óvart með náttfatapartýi eftir að þær voru búnar að hátta, þar var dansað uppi á borðum, farið í ótal leiki og svo fengu þær að sjá stórskemmtilegt leikrit sem endaði á því að þær fengu ís. Eftir að hafa borðað ísinn voru þær sungnar inn í herbergi og fóru að sofa sáttar eftir langan dag.
Á mánudaginn vöknuðu stelpurnar tilbúnar í veisludaginn mikla, sem er alltaf síðasta heila daginn í flokk. Þær fóru í mjög skemmtilegan leik úti eftir hádegi sem heitir Capture The Flag. Það var æsispennandi keppni á milli liða. Síðan var úrslitaleikurinn í brennókeppninni miklu haldinn og voru það Birkihlíð og Barmahlíð sem tókust á. Birkihlíð bar sigur úr býtum en það var mjög mjótt á munum. Eftir kaffi var svo vinagangur þar sem hvert herbergi gat boðið upp á eitthvað sniðugt í sínu herbergi, naglalökkun, nudd, skincare ofl. Eitt herbergi var svo sniðugt að bjóða upp á tiltekt hjá sér. Síðan máttu stelpurnar labba á milli herbergja. Veislukvöldið byrjaði síðan úti í kirkju, þaðan vófu stelpurnar mjúka niður á fótboltavöll þar sem var myndataka. Síðan fengu þær pizzur, viðurkenningar og að lokum veislukvöldvaka þar sem foringjarnir stigu á stokk með fjölmörgum leikritum. Allar skemmtu sér konunglega, mikið hlegið, mikið sungið.
Brottfaradagurinn byrjaði á morgunmat og skelltu stelpurnar sér svo út í kirkju í Biblíulestur. Eftir það var hinn æsispennandi brennóleikur, Birkihlíð á móti foringjunum. Birkihlíð stóð sig með eindæmum vel og spiluðu þær íþróttamannslega en foringjar báru sigur úr býtum í þetta skipti. Stelpurnar borðuðu pylsur úti og fóru svo inn að pakka, þrífa og kveðja bænakonuna sína. Við viljum þakka kærlega fyrir flokkinn og það var svo gaman að kynnast þessum frábæru flottu stelpum sem þið eigið.
Kær kveðja Ásta og Pálína forstöðukonur.