Hæhæ
Gærdagurinn var ótrúlega skemmtilegur í alla staði og vöknuðu stelpurnar kl.8:30 í glampandi sól. Eftir morgunmat og fánahyllingu fóru stelpurnar í biblíulestur með forstöðukonu, en þar ræddum við um vináttu, hvernig sannir vinir eiga að vera og hvernig þeir eru í lífinu þeirra alla ævi. Stelpurnar eru svo duglegar að hlusta og taka þátt í umræðum, algjörlega til fyrirmyndar.
Eftir bibló fóru fram fleiri brennóleikir og íþróttakeppnir úti í sólinni, en íþróttakeppnir dagsins voru t.d. spretthlaup og broskeppni, en í broskeppni mælum við með reglustiku hver er með stærsta brosið. Í hádegismat fengu stelpurnar steiktann fisk og franskar, ásamt grænmeti. Þær voru mjög duglegar að borða.
Í útiveru dagsins í sól og blíðu fóru stelpurnar gangandi að Brúðarslæðu, þær sem vildu fóru í sundfötum því þar er aldeilis hægt að vaða og sulla. Þær voru ótrúlega heppnar með veður og allar þurftu að smyrja sig vel með sólarvörn áður en haldið var af stað. Vel heppnuð útivera og skemmtu stelpurnar sér konunglega í sólinni.
Eftir að heim var komið fengu stelpurnar kaffitímann úti í sólinni, en í boði var möndlukaka og nýbakað brauð. Flestar voru svangar eftir gönguna svo þetta var kærkomið. Eftir kaffitímann héldu áfram brennóleikir og íþróttakeppnir, en einnig var boðið uppá steinamálningu úti í sólinni. Þar máttu stelpurnar fara og tína steina og mála á þá einhvað flott.
Í kvöldmat var boðið uppá pasta bolognese og eftir kvöldmat fór fram vinsæla kvöldvakan. Síðustu 4 herbergin voru með atriði og allir skemmtu sér konunglega eins og venjulega. Þær eru svo hæfileikaríkar og flottar þessar stelpur. Eftir kvöldvöku fór fram mjög stutt hugleiðing, því það sem þær vissu ekki var að framundan væri að fara vera svakalegt stuð fram á kvöld. Við reyndum að koma þeim snemma inn í herbergi og þegar þær héldu að bænakonur væru á leiðinni þá hlupu foringjar inn ganginn skreyttar klósettpappír og andlitsmálningu og hrópuðu: Hæ, hó, jibbí jei, ÞAÐ ER KOMIÐ NÁTTFATAPARTÝ.
Í náttfatapartýinu er alltaf gaman, það byrjar á því að stelpurnar hlaupa inn í matsal og fara upp á borðin og dansa og syngja með foringjum. Eftir nokkur lög af dansi og söng færa þær sig inn í setustofu og þar eru foringjar með atriði, dans og söng.
Í lokin fengu allar stelpurnar ís og hlustuðu svo á fallega sögu.
Veisludagur framundan og það er alltaf mest spennandi dagurinn 🙂
kærð kveðja
Marín Hrund forstöðukona