Jæja, veisludagur runnin upp og liðinn hjá.
Stelpurnar voru vaktar með söng og gleði því framundan var skemmtilegasti dagur flokksins, veisludagur. Eftir morgunmat og fánahyllingu komu stelpurnar í biblíulestur hjá forstöðukonur og umræðuefni dagsins var kærleikur. Við spjölluðum um hvað kærleikur væri, hvar væri ekki sýndur kærleikur í heiminum í dag og afhverju kærleikur er mikilvægur í lífinu okkar. Eftir biblíulestur fóru fram tveir brennóleikir, en það voru leikir um 1-2 sætið og svo 3-4 sætið. Þeir sem stóðu uppi sem sigurvegarar brennókeppninnar í 6.flokki þessa árs var sameiginlegt lið Eskihlíðar og Víðihlíðar, sem voru 10 vinkonur sem komu saman. Saman köllum við herbergin Veskihlíð og þær stóðu uppi sem sigurvegarar í ár eftir harða keppni við Grenihlíð.
Í hádegismat fengu stelpurnar lasagne og hvítlauksbrauð. Í útiveru dagsins fór fram Ævintýraganga um svæðið sem endaði á fræga Pokafossi, en þar fengu stelpurnar að heyra söguna um fossinn og einnig hittu þær nokkrar skemmtilegar fígúrur. Eftir gönguna fengu stelpurnar sjónvarpsköku og vinsælu Vindó súkkulaðibitakökurnar. Eftir kaffitímann hófst veislukvöldið svo formlega með vinagangi. Á vinagangi bjóða öll herbergin upp á einhvað skemmtilegt og allir labba á milli herbergja og heimsækja. Það var til dæmis boðið upp á nudd, makeup, hárgreiðslur, neglur, naglalakk, spákona, lófalestur og bangsapössun.
Þegar klukkan sló 17:30 hringdu kirkjuklukkurnar okkur til kirkjustundar, en þar sungum við nokkur skemmtileg lög og ræddum aðeins um Gullnu regluna. Eftir kirkjustundina okkar lá leiðin inn í setustofu í herbergjamyndatöku og þaðan inn í matsal. Þar hófst veislukvöldverður, en það er hefð að bjóða upp á pizzu og djús. Ef það er einhverntímann sem stelpurnar ganga saddar út úr matsalnum er það akkurat þetta kvöld, annað eins af pizzuáti hefur bara ekki sést.
Veittar voru viðurkenningar fyrir hinar ýmsu keppnir sem farið hafa fram í gegnum flokkinn, eins og t.d íþróttadrottning, íþróttaherbergi, brennómeistarar og svo viðurkenningar fyrir bestan árangur í einstaklingsíþróttakeppnum. Einnig er alltaf eitt herbergi sem stendur uppi sem sigurvegari í innanhúskeppni, en það er herbergið sem hefur haldið herberginu sínu mest hreinu yfir flokkinn, verið duglegar að hjálpa foringjum við ýmis verkefni og ýmislegt fleira.
Eftir matinn fór fram veislukvöldvaka, en þar sjá foringjar um atriðin og þá er alltaf mikið hlegið. Eftir kvöldvöku fengu allar stelpurnar ís og hlustuðu á söguna um Sakkeus, hvernig maður á ekki að vera gráðugur heldur frekar gefa af sér. Það voru þreyttar stelpur sem lögðust á koddann í kvöld og margar sorgmæddar yfir heimför á morgun. Á morgun fer fram brennóleikur milli foringja og sigurvegaranna, Veskihlíðar, og það er alltaf jafn skemmtilegt. Svo fáum við okkur pulsur í hádegismat og pökkum svo saman með bænakonum og eigum lokastund með þeim. Endilega kíkið inná ljósmyndavefinn á vindashlid.is en þar eru komnar rúmlega 300 myndir úr flokknum.
Rútan leggur af stað úr Hlíðinni um kl.14 svo við ættum að vera komin á Holtaveginn um kl.14:45 🙂
Sjáumst á morgun
kveðja
Marín Hrund forstöðukona