Hæhæ… hér skein sólin í morgun þegar við fórum á fætur og allir kátir eftir góðan nætursvefn.
Í gær var farið í ratleik um svæðið á milli herbergja og gekk mjög vel og gleði við völd. Nýbakaðar bollur og súkkulaðibitakökur í kaffinu og svo kjúklingaborgarar og franskar í kvöldmat. Næstu herbergi gerðu atriði á kvöldvöku og var mikið sungið, hlegið og skemmt sér þar. Í hugleiðingu var rætt um orðin manns, hvað þau geta sært og hvað við getum gert til þess að missa ekki stjórn á skapinu okkar því maður getur sært aðra mikið með orðum sínum. Stelpurnar hlustuðu vel og meðtóku boðskapinn vel. Þær fengu að fara að læknum að bursta tennur, hátta og pissa og gera sig klárar að taka á móti bænakonum, en þegar þær áttu von á þeim inn þá hófst náttfatapartý með miklum dansi, söng og atriðum. Stelpurnar voru margar mjög hissa en allar skemmtu sér svo vel. Það gekk vel að fara að sofa þó að ennþá er ein og ein sem kemur í auka knús fyrir nóttina með smá heimþrá. En allir sofnuðu að lokum og flestar voru sofandi þegar var komið að vekja kl 9.
Allar fóru upp á Fána að syngja hann upp, eins og er hefð í öllum sumarbúðum KFUM og K, síðan á Biblílestur þar sem þær fengu fræðslu um Biblíuna og dæmisögur Jesú, hvað hann dæmdi engan, sýndi öllum kærleika og fyrirgaf fólki. Við töluðum um hvað væri stundum erfitt að fyrirgefa og líka að biðja fólk um fyrirgefningu ef við gerðum eitthvað á þeirra hlut. Auðvitað var líka sungið fullt og núna eru þær á leið í brennó, íþróttakeppni, föndur, spjall og leiki. Áskorun dagsins var að finna tvær nýjar stelpur til að tala við og kynnast. Vonandi helst þurt hjá okkur í dag og við komumst í skemmtilega göngu.
Það væri frábært að fá símtal ef þið ætlið að sækja stelpuna ykkar eitthvað fyrr á sunnudaginn, annars komum við í bæinn um 14.40 sirka hjá Holtaveginum.
Kærleikskveðjur, Hanna Lára
p.s munið að skoða myndirnar okkar 🙂