Jæja, við keyrðum í Hlíðina inn í rigninguna en með sól í hjarta.
Þegar við komum fórum við beint út í íþróttahús þar sem forstöðukona fór yfir reglur staðarins og stelpunum var skipt niður í herbergi. Allir fengu að vera með vinkonum sínum í herbergi og það mun fara mjög vel um alla. Eftir yfirferð reglanna fórum við í skotbolta og stelpurnar spjölluðu og kynntust herbergisfélögum sínum.
Eftir smá viðveru í íþróttahúsinu lá leiðin inní matsal þar sem beið eftir stelpunum volg jógúrtkaka og kanilsnúðar, ásamt kaldri mjólk. Eftir kaffitímann fegnu stelpurnar að vita hverjar bænakonurnar þeirra voru og fylgdu henni inní herbergið sitt. Í herberginu fór bænakonan yfir smá herbergisreglur og labbaði með stelpunum um húsið og sýndi þeim allt það helsta. Síðan tók við frjáls tími, en það var t.d í boði að fara í leiki í íþróttahúsi, föndra einhvað skemmtilegt í föndurherberginu eða bara leika sér um svæðið. Inn í setustofu var líka skráning í hæfileikakeppni sem fór fram um kvöldið.
Í kvöldmat fengu stelpurnar kjötbollur og spagettí, þær voru mjög duglegar að borða. Eftir kvöldmat fór fram kvöldvaka, og í þetta skiptið var haldin hæfileikakeppni. Þar voru nokkur atriði, sem innihéldu söng og dans, flest með lögum úr nýju myndinni Kpop demon hunters. Öll atriði slógu í gegn 🙂
Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og boðið var upp á nýbakað kryddbrauð með smjör&osti. Stelpurnar fóru síðan inn í herbergi í náttfötin og svo hittumst við í setustofunni þar sem fór fram hugleiðing kvöldsins. Á hugleiðingu endum við alltaf daginn í ró, lesum fallega sögu og syngjum nokkur róleg lög. Hins vegar það sem stelpurnar vissu ekki var að uppi á foringjahæð voru foringjar að undirbúa sig fyrir það sem framundan var….NÁTTFATAPARTÝ !!
Þær dönsuðu uppá borðum og sungu úr sér lungun. Síðan tóku foringjar nokkur skemmtileg lög og atriði og stelpurnar skemmtu sér konunglega. Náttfatapartýið endaði svo á að allar fengu ís og hlustuðu á sögu með fallegum boðskap um að gefast ekki upp.
Eftir allt stuðið fóru stelpurnar að bursta tennur og fengu svo bænakonurnar sínar inn til sín. Bænakonur lesa fyrir stelpurnar, biðja með þeim og spjalla.
Skemmtilegur dagur á enda <3
Minni á að kíkja á myndasíðu Vindáshlíðar, þar fara að streyma inn myndir
kveðja úr Hlíðinni
Marín Hrund forstöðukona