Jæja áfram hélt dagurinn..
Í hádegismat fengu stelpurnar grjónagraut og lifrapylsu. Eftir hádegismatinn fóru þær í skemmtilegan göngutúr að Pokafossi, sem er ca 15min ganga aðeins út fyrir svæðið okkar. Þar fóru stelpurnar í skemmtilega leiki og nutu náttúrunnar.
Eftir gönguna beið þeirra nýbökuð skúffukaka með bleiku kremi og karamellulengjur. Þær voru mjööööög sáttar við kaffið í dag og hámuðu í sig kökur og drukku ískalda mjólk með.
Eftir kaffitímann hófst svo hið eiginlega veislukvöld með vinagangi. En á vinagangi bjóða öll herbergin uppá einhvað og stelpurnar flakka milli herbergja. Það sem var í boði í dag var til dæmis hárgreiðsla, naglalökkun, nudd, spa, spil og litastöð. Þær finna alveg uppá þessu sjálfar og sjá um að „auglýsa“ herbergið með skreytingum og fleiru. Þetta veitir alltaf mikla gleði og flestar ná að gera einhvað skemmtilegt.
Um 18:00 voru stelpurnar komnar í sparifötin sín og leiðin lá í fallegu kirkjuna okkar. Þar áttum við saman fallega stund, þar sem við sungum hress lög og spjölluðum saman um mikilvægi vináttunnar. Eftir kirkjustundina héldum við í hefðir og kenndum stelpunum að vefa mjúka (þær geta sagt ykkur frá og gaman að sjá hvort þær muni muna eftir laginu). Eftir það fóru öll herbergi út í myndatöku með bænakonunum sínum.
Í veislukvöldmat var að sjálfsögðu pizza og brauðstangir, allt bakað af mikilli ást af ráðskonunni okkar. Eftir matinn fór fram stórskemmtileg veislukvöldvaka, þar sem foringjar flokksins sáu um skemmtiatriði. Þau veita alltaf mikla lukku og framkalla mikinn hlátur (oft líka hjá starfsfólkinu sem skemmtir sér alltaf konunglega að hlægja af hvor öðru).
Í hugleiðingu kvöldsins fengu stelpurnar ís til að borða meðan þau hlustuðu á fallega sögu um hvernig maður þarf stundum að passa orðin sín og að orð geta skilið eftir ör á sálinni sem eiga erfitt með að gróa. Þær eru á fullkomnum aldrei til þess að hlusta á allar þessar sögur með þessum mikilvægu gildum, þar sem allt dramað fer að byrja (eða mögulega byrjað nú þegar). Þær eru duglegar að taka þátt í umræðum og koma með ótrúlega flottar spurningar.
Stelpurnar fengu svo góðan tíma til þess að fara í lækinn að tannbursta sig og græja sig í háttinn. Núna meðan undirrituð er að skrifa þessi orð eru bænakonur að labba inná herbergin til þess að eiga ljúfa stund með stelpunum og róa þær niður í svefn.
Á morgun munum við eiga rólegan morgun, fara í skemmtilega leiki í íþróttahúsinu og vonandi njóta útisvæðiðsins meðan hægt er. Við förum í kirkjuna og eigum þar lokastund saman, þar sem forstöðukona segir stelpunum söguna af Hallgrímskirkju í Kjós og hvernig Vindáshlíð eignaðist hana. Í hádeginu grillum við svo pulsur og stelpurnar eyða svo lokastund með bænakonum og fá söngbækurnar sínar og armbönd. Rútan leggur af stað milli kl. 13:45-14:00 og við verðum komin á Holtaveginn þá milli 14:30-14:45 ca.
Sjáumst á morgun 🙂
kveðja úr Hlíðinni
Marín Hrund forstöðukona