Vindáshlíð er í Kjós um 45 km frá Reykjavík. Þar er frábær aðstaða bæði úti og inni. Þar er íþróttahús og gott útileiksvæði með leiktækjum og fótboltavelli. Í Vindáshlíð er margt hægt að gera og foringjarnir taka upp á ýmsu óvæntu. Á hverjum degi er lesin biblíusaga og mikið sungið.
Umhverfið býður upp á fjölbreytta útiveru, svo sem gönguferðir upp á Sandfell, að Selárfossi (Brúðarslæðu) og að Pokafossi. Þar er einnig hægt að fara í spennandi skógarleiki, ratleik og réttarleik. Í íþróttahúsinu er keppt í brennó í hverjum flokki. Í Vindáshlíð eru alls kyns afþreying í boði og eru til að mynda þythokkíborð, borðtennisborð og fótboltaspil í íþróttahúsinu, auk spila og bóka inni í skála þar sem er líka sérstakt föndurherbergi. Ekki má svo gleyma hinni sívinsælu vinabandagerð í Vindáshlíð. Rétt við íþróttahúsið er að finna apabrú og aparólu sem gaman er að sveifla sér og lítinn skógarkofa.
Hver dagur í Vindáshlíð hefur ákveðið skipulag. Þar er veitt fræðsla um kristna trú og Biblíuna, kenndar bænir og sungnir söngvar auk þess sem alltaf er farið í útivist og leiki, og brennóleikir spilaðir á hverjum degi. Á hverju kvöldi eru kvöldvökur þar sem stúlkurnar skemmta oft hver annarri.
Ævintýraflokkar eru upplifun fyrir 10 – 13 ára stelpur þar sem óvæntar uppákomur og frávik frá hefðbundinni dagskrá geta mætt þeim hvenær sem er.
Í hverjum flokki í Vindáshlíð eru 82 stelpur.
Aðstaðan í Vindáshlíð
- Aðalskáli (frá 1951) í Vindáshlíð er á tveimur hæðum. Á neðri hæð er mjög vel búið eldhús, stór matsalur, setustofa, þrjú herbergi og salernisaðstaða. Á efri hæð eru starfsmannaherbergi og salernisaðstaða. Í kjallara er geymsluaðstaða og þvottahús.
- Viðbygging við aðalskála (frá 2003) er 540 fm og skiptist í hæð og kjallara. Í kjallara er mjög góður tómstundasalur og föndurherbergi auk geymslu, þvottahúss og fleira. Á efri hæð eru átta svefnherbergi, starfsmannaherbergi og salernisaðstaða.
- Íþróttahús er í Vindáshlíð. Þar er farið í brennókepnnir milli herbergja, körfubolta, fótbolta og ýmsa aðra leiki. Í íþróttahúsi er þythokkíborð, borðtennisborð, snóker, fótboltaspil og ýmislegt fleira spennandi. Sturtuaðstaða er í húsinu.
- Kirkjan á staðnum er gamla Hallgrímskirkjan sem var á Saurbæ við Hvalfjarðarströnd. Hún var reist árið 1878 en flutt í Vindáshlíð 1957 og hefur þjónað þar síðan sem helgistaður fyrir þátttakendur í sumarbúðunum í Vindáshlíð.